Í þúsund ár
Höfundur: Örn Friðriksson
Textahöfundur: Ljóð: Ásgeir J. Jóhannsson
1.
Boðskap Drottins víst sér völdu,
virtu í öllu þjóðar hag.
Vopnin bitur fljótt þeir földu,
friðinn héldu þennan dag.
þorgeir goði kaus þar krossinn,
kynnti lögin snjöllum róm.
Sínum goðum fleygði í fossinn
fól í elfu heiðindóm.
2.
Kirkja Drottins, þú sem þreyttir
þúsund ára gönguleið.
Andans þrek og orku veittir
Íslands þjóð í hverri neyð.
Löngum þó að mistök manna marki
spor á hreinan skjöld,
blessun færði sífellt sanna,
sárin grædd á hverri öld.
3.
Kirkja Drottins, ár og aldir
örugg reis sem bjarg á jörð.
Orðið heilagt ótrauð valdir
alltaf þinni breisku hjörð.
Friðarboðskap Krists þú kenndir,
kveiktir trú í hjarta manns.
Ávallt fyrr og enn þú bendir
öllum leið til frelsarans.
4.
Kirkja Drottins, hrelldum, hrjáðum,
huggun ert í hverri raun.
Og af kærleik öllum smáðum
ávallt boðar sigurlaun.
Vertu stöðugt ár og aldir
athvarf þess sem veikur fer,
svo þú sterk og staðföst haldir
stöðu Guðs á jörðu hér.